laugardagur, mars 04, 2006

Ian McKellen


Í gærkvöldi stóðum við Sylvía okkur að því að vorkenna Ian McKellen. Það er auðvitað enginn haldbær ástæða til að vorkenna Ian McKellen. Hann er örugglega einn allra besti leikari sinnar kynslóðar. Hann fær örugglega vel borgað og býr í fimm hæða viktoríönsku húsi í Limehouse við bakka Thames. Þá virðist hann líka hafa greitt úr þeim persónulegu vandamálum staðið gætu í vegi fyrir hamingju hans.

Í gær fann maður til með Ian McKellen einmitt vegna þess sem hann gerir best: að leika. Mér tókst með þrautseigju að næla okkur í tvo miða á verkið The Cut sem er sýnt hér 15 mínútna labb frá okkur í Donmar Warehouse, vörugeymslu sem hefur verið breytt hefur verið í lítið leikhús með um 300 sætum. Okkar voru í röð 2, nánast uppi á sviði með Sir Ian.

Það segir líklega sitt um Sir Ian að karakterinn sem hann lék var hreinn viðbjóður sem starfaði sem einhvers konar pyntingameistari í alræðisríki framtíðarinnar. Sir Ian átti alla okkar samúð út sýninguna, enda leið honum ekki beinlínis vel þegar hann kom heim úr vinnunni til fjölskyldunnar.

Mig langar aftur. Eitthvað segir mér samt að maður eigi ekki að fara tvisvar á sama verkið um pyntingar og óhugnanleg leyndarmál.

þriðjudagur, febrúar 28, 2006

Lurða.

Síðari hluti ferbrúarmánaðar hefur verið nokkuð lurðulegur. Til dæmis hefur íþróttaiðkun boxaranna færst frá skvassi yfir í “pool”. Eldamennskan hefur einkennst af skyndiréttum úr Tesco og auknum pizzupöntunum hjá Ciao Bella ítalska veitingastaðnum handan hornsins. Það er spurning hvort boxararnir séu að undirbúa sig undir komandi átök eða bara almenn leti og nennuleysi.

Grámyglan náði samt nýjum víddum í gær þegar undirritaður boxari reif sig á fætur og mætti í tíma 9.30 (veit hvað þið sem vaknið alltaf kl 8.00 eruð að hugsa – þið eigið alla mína samúð) og hlustaði á einn af prófessorunum til klukkan 11.00 þá rétt stauluðumst ég og sammnemandi minn Sindri á Starbucks. “Double shot latte” dugði ekki til að að koma blóðflæðinu til heilans. Þetta var greinilega einn af þeim dögum þar sem pródúksjónin yrði í lágmarki og langa gatið á milli tíma yrði ekki nýtt til hins ýtrasta á bókasafninu svo við ákváðum að taka næsta strætó sem kæmi og taka útsýnistúr í einum tveggja hæða almenningsvagni. London hefur að geyma margar fallegar viktoríanskar byggingar en því miður er oft hrikalega ljótum byggingum í anda VRII plantað í næsta nágrenni við.

Eftir góðan hring um stórborgina fór ég í einn af furðulegustu fyrirlestrum sem ég farið á. Kennarinn lauk tímanum (tók ca. hálf tíma í þetta) í svona quiz. Bretar eru quiz óðir, ekki hægt að kveikja á sjónvarpinu án þess að rekast á quiz. Quizzið var þannig að við áttum að giska á hvaða drasl safnaðist fyrir á litlum eyjum í Kyrrahafinu. Mér varð strax hugað til bernskuára minna í unglingavinnunni í Viðey sem fólst í því að safna drasli á svörtum ströndum Viðeyjar og brenna. Þar var annaðhvert drasl plastpoki, dömubindi eða korkur.

En kennarinn verðlaunaði þá nemendur fyrir að geta upp á rétta draslinu með að gefa þeim eintak því. Þannig að einn nemandi giskaði skór og hann fékk gamlan inniskó úr fataskáp kennarans. Ég verð að viðurkenna að hvatning mín fyrir vinningunum minnkaði við hvern vinning sem hann dróg úr pokanum sínum. Hann endaði svo tímann á ljóðalestri. Ljóðalesturinn endaði svo á mjög dramatískum nótum þegar hann allt í einu dró upp úr stórum svörtum ruslapoka umferðakeilu og henti á kennaraborðið.

mánudagur, febrúar 27, 2006

Helgin.



,,Neither team wanted to win this, so they will have to feel satisfied with the point each. But for both sets of supporters this seemed rude reward for the money spent, the beer drunk, the greasy food ingested. Thank you to the 'whopping crowd of 26594' the stadium announcer crowed. But those who decide to turn up next time have the right to expect far better.”

Líklega segir það sitt um ágæti félagsskaparins sem ég var í á heimavelli Charlton síðastliðinn laugardag að ég skemmti mér hið besta á þessum leik. Og það án þess að rengja eitt einasta orð í lýsingu Jamie Jackson, blaðamanns The Guardian um þennan leik.

Það vildi svo heppilega til að með mér á vellinum voru þeir Óli, Bjartur og Jói sem komu hingað á föstudagskvöld. För þeirra hafði upphaflega verið heitið á stórleik Tottenham og Wigan. Þökk sé afspyrnuslöku gengi míns liðs í enska boltanum var þeim leik flýtt um viku. Í stað þess var farið á annan stórleik: Leik Charlton og Aston Villa.

Annars var þetta í alla staði einstaklega ljúf helgi. Ég ætla að vona að vikan framundan verði ekki erfið og leiðinleg í samanburði við helgina. Sylvía er að fara í ferðalag með deildinni sinni og ég þarf að skrifa sem aldrei fyrr.


Jói, Óli og Bjartur á góðri stund í leikslok.


Enginn okkar var nógu fantatískur Charlton-áhangandi til að ryðjast fram fyrir börnin og fá eiginhandaráritun hjá Chris Powell.