Rangnefnt páskafrí.

Eftir að kennslu lauk í síðustu viku hefur verið meira að gera en nokkru sinni fyrr. Allt í einu sit ég uppi með talsvert meira af tíma sem ég get samviskusamlega eytt í áhyggjur af ritgerðunum mínum. Þess á milli reyni ég að grynnka á þessum áhyggjum með beinni vinnu í skrifum.
Fríið var svo sannarlega kærkomið þegar það byrjaði. Að minnsta kosti eftir síðasta tímann í stjórnskipun Evrópusambandsins hjá Trevor Hartley, þar sem portúgalskur samnemandi minn hélt 45 mínútna fyrirlestur um nýja tilskipun um fjármálaþjónustu.
Við getum sagt sem svo að nærvera mín á þessum fyrirlestri hafi verið í hróplegu ósamræmi við áhuga minn á efni hans.