fimmtudagur, mars 23, 2006

Rangnefnt páskafrí.


Eftir að kennslu lauk í síðustu viku hefur verið meira að gera en nokkru sinni fyrr. Allt í einu sit ég uppi með talsvert meira af tíma sem ég get samviskusamlega eytt í áhyggjur af ritgerðunum mínum. Þess á milli reyni ég að grynnka á þessum áhyggjum með beinni vinnu í skrifum.

Fríið var svo sannarlega kærkomið þegar það byrjaði. Að minnsta kosti eftir síðasta tímann í stjórnskipun Evrópusambandsins hjá Trevor Hartley, þar sem portúgalskur samnemandi minn hélt 45 mínútna fyrirlestur um nýja tilskipun um fjármálaþjónustu.

Við getum sagt sem svo að nærvera mín á þessum fyrirlestri hafi verið í hróplegu ósamræmi við áhuga minn á efni hans.

Kappið og fegurðin.



Á laugardaginn var farið völlinn til að sjá eitt að fáum liðum í heiminum sem heldur tryggð við heilræði séra Friðriks Friðrikssonar um að láta aldrei kappið bera fegurðina ofurliði.

Reyndar efast ég um að séra Friðrik hafi einhvern tíma hugsað úti í það að þessi lífsýn myndi leiða listamenn í tuðrusparki eins og Henry, Pires og fleiri til ósigurs gagnvart liðum eins og Bolton.

Það er hins vegar alltaf gaman þegar mínir menn mæta liðum sem deila þessari lífsýn. Leikmenn Charlton virtust fullkomlega sáttir við að taka að sér hlutverk áhorfendanna sem þurftu ekki að borga sig inn. Hermann Hreiðarsson, ef þú lest þessa síðu, þá máttu vita að þú og þínir menn áttu stóran þátt í að gera mér glaðan dag.

Sú skemmtilega nýbreytni var tekin upp að Sylvía fylgdi mér á völlinn. Með okkur í för var vinafólk okkar frá Brasílíu, þau Anderson Ferndandez og Ligia Favero. Ef marka má stemmninguna og háreystina sem upphófst í hvert skipti sem samlandi þeirra Gilberto fékk boltann þá verður mikið gaman að horfa á HM með þeim í sumar.


Ákafi Anderson fyrir leiknum kom ekki í veg fyrir að hann hugsaði um mataræðið.


Sylvía og Ligia alsælar með nammi.

Góður gestur.


Á þriðjudaginn urðu fagnaðarfundir þegar stóröðlingurinn og yfirbloggarinn Stefán Pálsson kom í heimsókn. Stefán hefur, eins og margir vita, verið einn af öflugustu andstæðingum herstöðvarinnar í Keflavík í áraraðir.

Stærstan hluta þess tíma hefðu menn líklega fengið góðan stuðul á Lengjunni ef þeir hefðu tippað á brottför hersins árið 2006. Líklega þarf að leita aftur til lýðveldisstofnunarinnar til að finna langþráðari pólitískan sigur á Íslandi.

Í gærkvöld fórum við Stefán, Sylvía og Árni á leik Chelsea og Newcastle á Stamford Bridge í vesturhluta borgarinnar. Þegar fjórar mínútur voru liðnar af leiknum skoraði Chelsea. Eftir það var fljótlega ljóst að leikmenn Newcastle hugsuðu sem að þarna væri ekki við menn að eiga. Bar frammistaða þeirra á vellinum því glöggt vitni.

Núna eru litlar vonir til þess yfirburðir Chelsea í enska boltanum réni. Lærdómurinn af hersetunni er þó sá að maður má aldrei gefast upp. Það er aldrei að vita nema Abrahamovitsj ákveði einn daginn að flytja liðið til Rússlands þar sem ekki verði þörf fyrir það lengur í London.




Sannarlega betri helmingurinn í okkar sambandi, ef stuðningur við fótboltalið er undanskilinn.