föstudagur, maí 19, 2006

Eurovision


Ég spáði því að Silvía myndi komast áfram. Reyndist ekki sannspá í þeim efnum. Mikill spenningur myndaðist fyrir keppnina hér í International Hall, enda erum við með einn helsta Eurovision-fræðing þjóðarinnar á efri hæðinni sem mætti tveimur tímum fyrir keppni til að ganga úr skugga um að allt væri tengt og frágengið. Netið við sjónvarpið og svo hljóðið við tölvuna.

Síðan voru símarnir gerðir klárir fyrir kvöldið. Þeir sem hafa áskrift þurftu ekki að hafa frekari áhyggjur en minn sími (þessi flotti) er top up sími og sá ég til þess að næg inneign væri á honum til að geta greitt svona rétt rúmlega 8 atkvæði.


Nú svo hófst keppnin. Indverskur matur var snæddur með eðal svissnesku súkkulaði í boði Chris í desert. Ekki get ég sagt að dinnertónlistin hafi slegið í gegn, frekar vemmileg og klisjukennd. Þar sem við horfum á þetta án lýsingar (beint af netinu) þurftum við að reiða okkur á hann Árna sem kom með marga velútfærða fróðleikspunkta. Finnarnir áttu gott sjóv og nýttu möguleika sviðsins. Carola náði að sletta smá elegans í sín vemmilegheit. Silvía mætti svo í lokinn og þrátt fyrir ,,the biggest boooo in eurovision history” þá skilaði hún laginu með þokka. En, hvað um það, Evrópa er ekki tilbúin fyrir Silvíu þó að Silvía sé tilbúin fyrir heiminn.

Finnst svona írónía í því að við séum orðin of kúl fyrir keppnina og sendum grínlag. Erum síðan rosa súr yfir því að það komist ekki áfram, spurning um hvort við séum ekki að bíta í skottið á sjálfum okkur.

miðvikudagur, maí 17, 2006

Atvinnuviðtal.

Atvinnuviðtal er viðburður sem fólk gengur ekki til af fullri yfirvegun nema það hafi alls engan áhuga fyrir því starfi sem í boði er.

Síðastnefndar aðstæður eru örugglega ekki algengar. Þær gætu þó komið fyrir fólk sem hefur kosið sér það sérkennilega hlutskipti í lífinu að vera hengilmænur og ákveðið að helga líf sitt stöðugri leit að löglegri afsökun fyrir áframhaldandi greiðslu atvinnuleysisbóta.

Ljóst er að hagkerfið mun verða fyrir verulegum skakkaföllum þann dag sem meiri eftirspurn verður eftir hlutverki hengilmænunnar en launaþrælsins. Verður þá væntanlega stutt í þá samfélagsskipan sem stór hluti heldur áfram að vera hengilmænur en aðrir verða einfaldlega þrælar án þess að laun komi þar nokkuð við sögu (sbr. sögu Rómarveldis).

Í ljósi ofangreinds léttir mér alltaf þegar ég sé fólk hafa fyrir því að verða sér úti um heiðarlega vinnu. Hér í Bretlandi hafa fjölmiðlar t.d. verið undirlagðir af fréttum um Hr. Goma nokkurn sem mun hafa sótt um vinnu sem kerfisfræðingur hjá BBC.

Fyrir röð mistaka var Hr. Goma hins vegar látinn sitja fyrir svörum í beinni útsendingu í viðskiptaþætti BBC um vörumerkjadeilur Apple tölvurisans og útgáfufyrirtækis Bítlanna. Að sögn Hr. Goma taldi hann þetta vera hluta af atvinnuviðtalinu og bar sig furðu mannalega þót þetta kæmi honum augljóslega á óvart. Myndbandið af þessu verða allir að sjá.

Merkilegt nokk,





Á fimm ára fresti er talningadagur í Tyrklandi. Hann ber oftast upp á Sunnudag, þá má enginn fara út og grilljón manns ganga hús úr húsi og spyrja fólk allskonar spurninga og telja fólk. Ef maður er ekki talinn, þá er maður ekki með.

þriðjudagur, maí 16, 2006

Útlendingar

Afhverju er tekið fram að fólkið sé af erlendum uppruna?

Hér og Hér

Að útrétta

Það er eins gott að drífa sig að klára þetta próf svo maður geti farið að snúa sér að þessu. En þetta vandamál verður viðfangsefni mitt í mastersverkefninu í sumar.

Við sitjum hérna og lærum undir nöldursræðu nágranna okkar á pólsku. Mikið hvað hún getur baðað út höndunum þegar hún talar, sé rétt í hendurnar á bakvið gardínurnar. Kjartan hefur nú sett á lagið always look on the bright side of life.

Í pottunum er hakk að malla, það er víst galdurinn á bak við hakk og spagettí að láta þetta malla sem lengst. Við vorum vakin kl 6 í morgun þegar brunabjallan fór í gang. Hún fer mjög oft í gang hérna í International Hall. Við fórum út á gang og hittum nágranna okkar þar Chris og Reto, þau voru ekkert sérlega sæl á svipin frekar en við.



Jæja, best að drífa sig að læra svo maður getur farið að byrja á verkefninu. Annars er ég að koma ein mín liðs til landsins í lok mánaðarins til þess að útrétta. Aðallega að spá og spekúlera í nýjum húsakynnum fyrir okkur hjónaleysin, skilyrði fyrir íbúð eru: ekki of langt frá miðbænum, gott eldhús og baðkar. Vitið þið um eitthvað?

sunnudagur, maí 14, 2006

Veruleikafirring

Að tala við vinkonu mína frá Hollandi sem ég bjó með á Ítalíu á msn:

Ég: “Nei hæ! Hvar í heiminum ertu stödd núna?”
Vinkonan: “Ég er í Ísrael”
Ég: “Vá en spennó, þú ert nú meiri ævintýramanneskjan”
Vinkonan: “Já komdu í heimsókn”
Ég: “Hvar í Ísrael ertu?”
Vinkonan: “Ég er í Netanya”

Googla upp Netanya og sé að þar líkt og í Tel Aviv hafi verið eitthvað um sprengingar

Ég: “Hvað ertu að gera þarna, er öruggt að vera þarna”
Vinkonan: “Hvar ert þú?”
Ég: “London”
...

(Nú er komin upp sú hugmynd að við skötuhjú heimsækjum hana þegar skóla líkur...enda lengi langað að skoða Jerúsalem og Dauðahafið).