Eurovision

Ég spáði því að Silvía myndi komast áfram. Reyndist ekki sannspá í þeim efnum. Mikill spenningur myndaðist fyrir keppnina hér í International Hall, enda erum við með einn helsta Eurovision-fræðing þjóðarinnar á efri hæðinni sem mætti tveimur tímum fyrir keppni til að ganga úr skugga um að allt væri tengt og frágengið. Netið við sjónvarpið og svo hljóðið við tölvuna.
Síðan voru símarnir gerðir klárir fyrir kvöldið. Þeir sem hafa áskrift þurftu ekki að hafa frekari áhyggjur en minn sími (þessi flotti) er top up sími og sá ég til þess að næg inneign væri á honum til að geta greitt svona rétt rúmlega 8 atkvæði.

Nú svo hófst keppnin. Indverskur matur var snæddur með eðal svissnesku súkkulaði í boði Chris í desert. Ekki get ég sagt að dinnertónlistin hafi slegið í gegn, frekar vemmileg og klisjukennd. Þar sem við horfum á þetta án lýsingar (beint af netinu) þurftum við að reiða okkur á hann Árna sem kom með marga velútfærða fróðleikspunkta. Finnarnir áttu gott sjóv og nýttu möguleika sviðsins. Carola náði að sletta smá elegans í sín vemmilegheit. Silvía mætti svo í lokinn og þrátt fyrir ,,the biggest boooo in eurovision history” þá skilaði hún laginu með þokka. En, hvað um það, Evrópa er ekki tilbúin fyrir Silvíu þó að Silvía sé tilbúin fyrir heiminn.
Finnst svona írónía í því að við séum orðin of kúl fyrir keppnina og sendum grínlag. Erum síðan rosa súr yfir því að það komist ekki áfram, spurning um hvort við séum ekki að bíta í skottið á sjálfum okkur.