föstudagur, janúar 13, 2006

(Lúxus)- Stund milli stríða.

Núna er ég mitt á milli tveggja álagstoppa. Sá fyrsti er yfirstaðinn. Eftir að ritgerðinni var skilað í gær kíkti ég aðeins út fyrir boxið á útsölurnar og fór svo í klippingu og litun. Það er alveg merkilegt hvað nýju vörurnar í búðunum eru oft girnilegri en þær sem komast í útsöluflokkinn. Ég var orðin nokkuð H&M þurfi þannig að ég skellti mér á tvo læriboli fyrir næsta álagstopp. Fékk mér svo eins og sannri stórborgar-dömu sæmir “latte-to-go” og virti fyrir mér mannlífið.

Hvað ætli það séu margar óskráðar reglur sem maður fylgir, næstum daglega? Gönguhraði fólks er vissulega mishraður líkt og fólk er misjafnt. Fólk þeytist um án árekstra eins og mólikúl þar sem fráhrindikraftarnir sjá til þess að slíkir atburðir eigi sér ekki stað. Þegar sú tilviljun gerist að gönguhraði minn er í algjörlega sama tempói og sá óþekkti aðili sem gengur við hliðiná mér, þá þarf annar hvor aðilinn að hörfa. Annað væri álíka skrítin tilfinning og sjá kínverska-fjölskyldu verja kvöldstund sinni í “Monopoly”. Sá sem er að flýta sér getur í gegnum líkamstjáningu sína gefið til kynna að svo sé statt t.d. með því að líta á klukkuna og greitt síðan úr spori (nema tempóið sé mjög hratt) meðan hinn heldur dregur örlítið úr tempóinu svona til að sína viðleitni. Sama er upp á teningum ef fólk er í breiðri t.d. þegar hleypt er út úr tónleikahöllum. Þá er tilhneiging fólks sú að vera ekki í beinni línu heldru örlítið á skjön við hvert við annað.

Kjartan tók sér svo pásu frá ritgerðarskrifum sínum og hitti mig á Neal street og við fengum okkur færibanda-sushi. Þetta var sannkallaður lúxusdagur. Núna þarf ég og vil fara að byrja á næstu rigerðarskrifum. Þau ættu að vera auðveldari ekki bara vegna þess að ég er komin í æfingu líka vegna þess að eftir hana og rétt áður bíður mín glæsileg gulrót. Tengdó ætla að heimsækja okkur og svo eru þær Sif, Herborg og Sóley á leiðinni.

fimmtudagur, janúar 12, 2006

Neyðarkall.


Ég er í nauðum staddur. Hinn 8. mars næstkomandi mun knattspyrnuliðið Real Madrid koma til London og spila við hverfisliðið mitt Arsenal í meistaradeildinni. Eitt helsta takmark mitt í lífinu þessa dagana er að komast á þennan leik.

Það er hérna sem neyð mín gerir vart við sig. Uppselt er á leikinn hér í London og miðarnir kosta minnst 45.000 krónur stykkið á svörtu. Strangt til tekið myndu fjárráð mín leyfa þessa eyðslu. Skynsemi mín og siðferðiskennd banna hana hins vegar.

Mér hefur í gegnum þrautseigju og útsjónarsemi tekist að útvega mér miða á leikinn gegnum spænska skrifstofu á hóflegu verði. Vandinn er: Ég verð að láta senda miðann á heimilisfang á Spáni.

Nú er spurningin: Er einhver lesandi þessarar síðu sem getur bent mér á einhvern sem býr á Spáni og nennir að senda mér miðann til London? Hægt er að svara í kommentakerfið eða senda mér tölvupóst á K.Bjorgvinsson@lse.ac.uk.

Ef svo er fengi viðkomandi að launum frá mér rauðvínsflösku og ævarandi þakkarskuld.

miðvikudagur, janúar 11, 2006

Móralska hornið.


Flaggskip dagblaðsins The Times er án efa Móralska hornið sem birtist í blaðinu á miðvikudögum. Í dálkinum situr Joe Joseph fyrir svörum um hin og þessi siðferðislegu álitamál sem lesendur leggja fyrir hann.

Í dag lagði lesandi fyrir hann spurningu um fótboltaspil sem hann spilar í á hverfisbarnum sínum:

,,Hver leikur í spilinu kostar 1 pund. Þar sem viðhalds- og rekstrarkostnaður spilsins getur ekki verið mikill verður að teljast að þessi fjárhæð sé nokkuð úr hófi. Svo heppilega vill till að ég kom fyrir skemmstu frá Swazilandi með helling af smápeningum, en hver þeirra er nákvæmlega eins í laginu og eins punda myntin. Virði hvers penings er ekki nema 9 pens þannig að ég er að stórgræða á að nota þetta. Nú er spurningin: Hversu vondur er ég?

Svar:

,,Swazilanski peningurinn þinn er kannski í laginu eins og 1 pund. Það breytir þó ekki því að hann er EKKI eitt pund.

Þú átt ekki rétt á að ákveða hvað þú borgar fyrir leik í fótboltaspilinu frekar en þú átt rétt á að ákveða einhliða hvað þú borgar fyrir bjórinn sem þú svolgrar meðan þú spilar. Þannig er nú það kallinn minn. Og þrátt fyrir að það kosti nú ekki mikið að halda einu svona fótboltaspili við þá kostaði örugglega sitt að kaupa það á sínum tíma. Það er ekkert nema eðlilegt að eigandinn rukki fyrir notkunina til þess að ná upp í kaupverðið þótt það tengist ekki beint viðhaldinu.

Ég myndi ekki segja að þú værir beinlínis vondur. Háttsemi þín er hins vegar vissulega siðferðislega ámælisverð. Ef þú lætur ekki af þessu gætirðu átt á hættu að verða barinn.”

þriðjudagur, janúar 10, 2006

Næst á dagskrá.


Uppáhaldsjónvarpsþátturinn minn er í svipuðum anda og Innlit-Útlit. Hann snýst í stuttu máli um það að umsjónarmaður þáttarins fer í heimsókn hjá þjóðþekktu fólki röltir um heimili þess og spyr það úti í hluti sem fyrir augu ber.

Í konseptinu er þó einn mikilvægur útúrdúr. Þátturinn einskorðast við þjóðþekkt fólk sem lætur til sín taka á menningarsviðinu og hefur einstakt lag á að tala niður til fólks með því einu að opinbera skoðanir sínar. Hitt tvistið kemur í ljós þegar umsjónarmaðurinn gengur til stofu, rennir augunum yfir bækurnar og spyr:

,,Þú ert mikill bókamaður?”

Gestgjafi: ,,Já. Á mínu heimili var nú sagt að það væru tvenns konar háskólapróf sem menn tækju. Í fyrsta lagi væri þar um að ræða hið hefðbundna. Hitt væri að hafa lesið Laxness?”

Umsjónarmaður: ,,Þannig að þú ert mikill Laxnessmaður?”

Gestgjafi: ,,Já, mikil ósköp.”

Þegar hér er komið sögu skiptir umsjónarmaðurinn hins vegar algerlega um ham. Í stað hlédræga gestsins birtist skyndilega ofur-kvindislegur menntaskólakennari sem hefst óðar handa við að hlýða gestgjafanum rækilega yfir um hin og þessi atriði tengd Laxness. (Dósahlátur heyrist í hvert skipti sem gestgjafinn svarar rangt).

Áður en yfir lýkur verður öllum áhorfendum ljóst að þessi mikli áhugi gestgjafans á Laxness er fyrst og fremst í þykjustunni.

Það er vonum seinna að þessi uppáhaldsþáttur minn birtist á öldum ljósvakans. Hugmyndin er hér með opinberuð til frjálsra afnota ef einhver kærir sig um.

mánudagur, janúar 09, 2006

Timburmenn jólafrísins.

Verkefni, ritgerð, ritgerð og kappræða.

Aðfaranótt síðustu verkefnaskilar sleppti ég því að sofa.
Mikið vona ég að ég upplifi það aldrei aftur.

Nú snúast hugsanir mínar um aumingjans gamalmenninn í Bandaríkjunum og hvernig heilbrigðiskerfið níðist á þeim. Meira um það hér.