laugardagur, febrúar 18, 2006

Ræðumennska



Vikan byrjaði á kappræðu. Liðið okkar hafði betri málstaðinn sem gerði hinu liðinu erfitt uppdráttar. Umræðuefnið um hvort að ábyrgð aðgerðargreiningarfræðingsins sé að uppfylla þarfir kúnnans án tillits til annarra afleiðinga. Þetta gekk ágætlega hjá okkur en hefði getað verið betra með meiri undirbúningi. Vikan hefur litast af þessari kappræðu... hausinn á mér vill oft fara af stað t.d. þegar ég geng heim úr skólanum um allt það sem ég hefði getað sagt. Ég fengi nú ekki hátt á EQ skalanum með þessu áframhaldi.

Ég fékk samt ekki nærri því góða spurningu úr sal einsog þegar ég hélt tölu yfir slökkviliðinu á starfsdögum á Nesjavöllum. Ég var að lýsa fyrir þeim einu af þeim verkefnum sem voru á minni könnu. Þetta var voða “fancy” með ýmsum orðum á borð við “vísindalegri stjórnun” og “þarfagreiningu”. Þetta var allt um það að ná mælanlegum niðurstöðum um árangur í því skyni að bæta þjónustuna.

Þá spurði einn dottandi slökkviliðsmaður úr sal:
“Já en Sylvía ég skil ekki alveg ætlaru að gera þarmagreiningu á sjúklingunum eða slökkviliðsmönnunum sjálfum til að ná skjótari þjónustu?”

Á morgun á ég pantaðan tíma hjá einum helsta lófalesara Breta það kæmi mér nú ekki á óvart að ég væri með ræðu(ó)mennsku línuna einhverstaðar í lófanum mínum.

föstudagur, febrúar 17, 2006

Tíu hlutir sem gera lífið skemmilegra.

Í mínum huga hefur tímaritið Séð og heyrt aldrei staðið undir slagorði sínu um að gera lífið skemmtilegra. Hérna eru hins vegar nokkur atriði sem gera það ótvírætt.

1. Mannréttindareglur. Gaman að læra þær, ennþá skemmtilegra að beita þeim með árangri.

2. Að Árni (sjá nýjan hlekk) skuli vera búinn að útvega sér húsnæði. Sérstaklega af því að umrætt húsnæði er í sama húsi og við Sylvía: International Hall.

3. Að Óli komi í heimsókn næstu helgi ásamt Bjarti og Jóa.

4. Brúðkaup Fígarós í Royal Opera: Besta óperusýning sem ég hef séð og heyrt.

5. Kjúklingabringan á Christophers og bláberjakakan í eftirrétt. Aðeins fimm mínútur frá óperunni og á tilboði ef pantað er fyrir sýningu.

6. Tónlistarsíðan www.allofmp3.com. Rúmast algerlega innan fjárlaga námsmannsins.

7. Voyager Estate rauðvínið sem pabbi gaf okkur Sylvíu og við erum að drekka rétt í augnablikinu.

8. Sjónvarpsefnið sem Sverrir kom færandi hendi með til okkar.

9. Kaffi.

10. London, ef maður veit hvert maður vill fara.

fimmtudagur, febrúar 16, 2006

Vorboðinn ljúfi.


Vorboðinn ljúfi kom ekki í líki þrastar þetta árið heldur í mynd Sverris yngri bróður míns. Ég get víst ekki kallað hann litla bróður minn lengur með góðri samvisku þar sem hann hefur núorðið a.m.k. fimm sentimetra umfram mig.

Helgin byrjaði á því að við fórum öll í leikhús að sjá Woody Harrelson í verki Tennesse Williams “The Night of the Iguana.” Er fólki almennt ráðið frá því að heimsækja þá sýningu. Hr. Harrelson er fyrst og fremst gamanleikari og stendur engan veginn undir dramatíkinni í verkinu.

Leikhúsferðinni var hins vegar bjargað þar sem við bræðurnir stóðum fyrir utan leikhúsið og í flasið á okkur gekk Edward nokkur Norton. Norton gekk í sömu átt og við í átt að Piccadilly en tók síðan beygju inn um sviðsdyrnar á Lyric Theatre, væntanlega til að hitta félaga sem Harrelson sem lék á móti honum í The People vs. Larry Flint.

Þetta flokkast því líklega ekki hefðbundið ,,celeb-sighting”. Þetta var ,,celebs-bonding sighting.”

Ókindin.


Laugardagurinn byrjaði snemma með amerískum pönnukökum og beikoni á Eagle´s Diner. Eftir það var förinni heitið á Sædýrasafnið – eða öllu heldur á London Eye hringekjuna. Raðirnar þangað gerðu það hins vegar að verkum að áfangastaðnum var breytt í Sædýrasafnið.

Sædýrasafnið er flott fyrirbæri. Sérstaklega hákarlarnir. Eins og sjá má myndu þeir eflaust sóma sér vel í aðalhlutverki kvikmyndarinnnar ,,Jaws”.

Á vellinum.


Síðdeginu var varið á besta mögulega hátt í London. Með ferð á völlinn. Leikurinn þennan dag á milli Arsenal og Bolton. Hið fyrrnefnda er eins og allir vita mitt lið hér í bæ. Færri vita hins vegar að fá lið, ef nokkur, vekja upp jafn-neikvæðar tilfinningar í mér og Bolton Wanderers.

Fyrstu 45 mínúturnar voru hrein kvöld og pína. Ég minnist þess einfaldlega ekki að hafa séð mína menn eins lélega nokkru sinni og akkúrat þarna. Seinni hálfleikurinn var töluvert skárri. Jafntefli með herkjum eru þó vægast sagt ekki draumaúrslit.

Ég ætla þó að leyfa mér að mæla með sæti 125 í röð K í efri hluta vestri stúkunnar á Highbury. Í næsta sæti situr nefnilega rithöfundurinn Nick Hornby. Hann er skemmtilegasti náungi. Líka á vellinum.

Gaman...


,, Hvernig veit ég að Abu Hamza al-Masri er illmenni (Abu var nýlega dæmdur í 7 ára fangelsi fyrir að hvetja til hryðjuverka)? Jú, af því hann er með stóran járnkrók á hendi. Ef maður missir höndina á maður val um það sem maður fær í staðinn. Gott fólk velur huggulegu gervi plasthöndina. Vondir menn velja hins vegar járnkrókinn.”

Þannig hófst laugardagskvöldið á snilldarstaðnum Comedy Store, sem er uppistandsklúbbur í hjarta London. Með honum er eindregið mælt.

Ein skemmtilegasta sýningin í London er tvímælalaust The Producers í Drury Lane Theatre þangað var farið á mánudagskvöld. Við einu skal þó varað: Gestir eiga vafalaust eftir að fá lagið ,,Springtime with Hitler in Germany” á heilann. Það er ekki lag sem maður getur raulað með sjálfum sér úti á götu ef fólk hefur ekki séð sýninguna.

....og alvara.

Heimsóknin endaði á dramatískum nótum með ,,námsferð” okkar bræðra í Central Criminal Courts í London.

Reyndar hefði sú ferð orðið endaslepp ef Sylvía hefði ekki fórnað sér fyrir hópinn og geymt farsíma okkar allra: það varðar allt að tveggja ára fangelsi að fara með farsíma þangað inn. Svona er maður í góðri sambúð.

Við bræðurnir sáum lokaræðu verjanda fyrir framan kviðdóm í réttarhöldum yfir þremur mönnum sem ákærðir voru fyrir morð. Átakanlegast var þó að horfa upp á stelpuna sem sat í stiganum þar sem við komum inn og hágrét. Miðað við fréttir sama dag er ekki ólíklegt að hún sé sakborningurinn í þessu máli. Hún var örugglega ekki meira en 18 ára.

Stóri yngri bróðir minn fór síðan heim síðdegis sama dag. Hans verður sárt saknað eftir góðar og skemmtilegar samverustundir í stórborginni. Hér að neðan eru nokkrar fleiri myndir úr heimsókninni.



Myndin af ofan er umslag væntanlegrar plötu ,,DJ Nino - LIVE IN WESTMINSTER ABBEY".



Hér að neðan eru nokkrar myndir frá Spitalfields markaðinum: