þriðjudagur, ágúst 23, 2005

Makt miðlanna.

Það eru sex ár síðan ég hætti að skrifa fréttir að atvinnu. Get nú ekki sagt að ég sakni þess.

Á tímabili hélt ég að fjölmiðlar væru kjörinn vettvangur til þess að láta gott af sér leiða. Maður ynni nú einu sinni hjá fjórða valdinu.

Áttaði mig fljótt að því að vald fjölmiðlanna er í besta falli tilviljunarkennt. Frétt eða grein sem einhver blaðamaður skrifar breytir sjaldnast nokkru. Það fyrst að einhver annars staðar tekur málið til sín að eitthvað fer að gerast. Afdrif fréttarinnar eiga því mest sitt undir utanaðkomandi framtakssemi.

Örsjaldan verður frétt sé bein orsök þess að eitthvað gerist. Líklega var síðasta dæmið um slíkt þegar Árna Johnsen var stungið í steininn. Það hefði varla gerst á sama hátt og það gerðist ef félagi Reynir Trausta hefði ekki náð svona góðu sambandi við tiltekinn afgreiðslumann í Byko.

Í íslenskum fjölmiðlum er sjaldnast að finna nokkuð sem skiptir máli í alvöru. Hlutverk þeirra er fyrst og fremst að sjá okkur fyrir einhverju að tala um. Og þá aðeins þegar við viljum tala um eitthvað sem ekki skiptir máli fyrir líf okkar sjálfra.

Íronískt

BOGMAÐUR
Margir í merki bogmannsins búa yfir nokkurri fullvissu þessa dagana, enda hafa þeir loks fundið sér markmið að stefna að. Takmarkið er að nálgast.

Likaminn fyrir lifið.

Stundum held ég að ég geti allt. Það hefur oftar en ekki komið sér vel og ekki vildi ég vera án þessarar hugsunar. Ef ég lít á undanfarna mánuði þá hefur þetta komið sér vel. Það fer ekki nokkur heilvita maður upp á Hvannadalshnjúk í splunkunýjum gönguskóm umkringd fjallageitum í slökkviliðsmannaformi. Né kenna heilli slökkviðsstöð jógastellingar á borð við hundinn og lotus. Hvað þá að taka þátt í róðrakeppni á sjómannadaginn hafandi aldrei stigið upp í róðrabát. Reyndar með úrvalssliði.

Fyrir ca tveimur mánuðum fékk ég þá hugdettu í höfuðið að ná þrekprófi slökkviliðsins. Það er ekki forsvaranlegt að æfa ekki með þennan fantafína tækjasal í kjallaranum í vinnunni. En ég hef sem sagt mætt á hverjum degi í hádeginu í yfir 6 vikur. Það finnst mér slattamikið.

Daginn sem ég og Margrét hófum lyftingaprógrammið vorum við eitthvað að ræða það hvernig slökkviliðsmannaprófið færi fram. Við fengum kynningu á tækinu frá íþróttaþjálfara slökkviliðsins. Hann tjáði okkur einnig það að við gætum aldrei náð prófinu. Kannski var það viljandi en hann náði að minnsta kosti að espa upp keppnisskapið í okkur báðum. Okkur til mikillar furðu tók Svavar þetta til sín fyrir okkar hönd sem einnig var staddur í salnum.

Upp hófst allsherjar átak. Við lyftum og við lyftum og við borðuðum skyr og við lyftum undir stífri og dyggri leiðsögn Svavars sem kenndi í brjósti um okkur og gerðist einkaþjálfari okkar. Ég finn fyrir vöðvum og harðsperrum. Í dag tók ég prufupróf. Það gekk ekki vel. Átakið hefur ekki fært mig nær takmarkinu. Ekki finnst mér það nú hvetjandi.

mánudagur, ágúst 22, 2005

Löng helgi.

Síðasta helgi (ekki helgin sem leið) var óvenjulöng í mínu lífi.

Þessi setning hefur vitaskuld afar tvíræða merkingu. Það fyrsta sem kemur upp í hugann er að eitthvað hræðilegt hafi gerst. Að ég hafi beðið milli vonar og ótta eftir einhverju. Slíkt hægir alltaf á tímanum.

Annað sem hægt er að hugsa út frá setningunni er að ég hafi tekið mér frí á föstudegi og mánudegi. Keypt eitthvað á grillið, farið í sumarbústað og ræktað tengslin við náttúruna.

Hvorugt af þessu á við. Sá fáheyrði viðburður átti sér hins vegar stað að ykkar einlægur tók síðustu helgi upp á því að vakna vel fyrir allar aldir. Án þess að beina nauðsyn bæri til þess.

Til að fyrirbyggja misskilning nær orðasambandið ,,fyrir allar aldir” í mínum huga til alls þess sem gerist fyrir hálf-tíu á morgnanna.

Mér til mikillar undrunar komst ég að því að þetta fyrirkomulag hafði ýmsa kosti í för með sér. Það voru óneitanlega viðbrigði að vera skyndilega búinn að afreka allt sem tekur mann yfirleitt hálfa helgina að gera um hádegisbil á laugardegi.

Upp úr þessu hafði ég tvö heil síðdegi. Nýtti þau til að lesa í hinum þessum bókum og senda tölvupósta sem loksins höfðu hvorki neitt með vinnu né flutninga að gera.

Ég velti því fyrir mér hvort ég hefði hugsanlega með þessu uppgötvað nýjan lífsstíl sem ég gæti tileinkað mér. Eftir að hafa barist við svefndrunga alla vikuna þykist ég nú vita að þetta sé vissulega nýr lífsstíll. Þegar ég slökkti á vekjaraklukkunni 9 í á laugardag rann hins vegar upp fyrir mér það ljós að þennan lífsstíl gæti ég aldrei tileinkað mér.

Mikið var gott að sofa loksins út.