þriðjudagur, ágúst 23, 2005

Makt miðlanna.

Það eru sex ár síðan ég hætti að skrifa fréttir að atvinnu. Get nú ekki sagt að ég sakni þess.

Á tímabili hélt ég að fjölmiðlar væru kjörinn vettvangur til þess að láta gott af sér leiða. Maður ynni nú einu sinni hjá fjórða valdinu.

Áttaði mig fljótt að því að vald fjölmiðlanna er í besta falli tilviljunarkennt. Frétt eða grein sem einhver blaðamaður skrifar breytir sjaldnast nokkru. Það fyrst að einhver annars staðar tekur málið til sín að eitthvað fer að gerast. Afdrif fréttarinnar eiga því mest sitt undir utanaðkomandi framtakssemi.

Örsjaldan verður frétt sé bein orsök þess að eitthvað gerist. Líklega var síðasta dæmið um slíkt þegar Árna Johnsen var stungið í steininn. Það hefði varla gerst á sama hátt og það gerðist ef félagi Reynir Trausta hefði ekki náð svona góðu sambandi við tiltekinn afgreiðslumann í Byko.

Í íslenskum fjölmiðlum er sjaldnast að finna nokkuð sem skiptir máli í alvöru. Hlutverk þeirra er fyrst og fremst að sjá okkur fyrir einhverju að tala um. Og þá aðeins þegar við viljum tala um eitthvað sem ekki skiptir máli fyrir líf okkar sjálfra.