mánudagur, ágúst 22, 2005

Löng helgi.

Síðasta helgi (ekki helgin sem leið) var óvenjulöng í mínu lífi.

Þessi setning hefur vitaskuld afar tvíræða merkingu. Það fyrsta sem kemur upp í hugann er að eitthvað hræðilegt hafi gerst. Að ég hafi beðið milli vonar og ótta eftir einhverju. Slíkt hægir alltaf á tímanum.

Annað sem hægt er að hugsa út frá setningunni er að ég hafi tekið mér frí á föstudegi og mánudegi. Keypt eitthvað á grillið, farið í sumarbústað og ræktað tengslin við náttúruna.

Hvorugt af þessu á við. Sá fáheyrði viðburður átti sér hins vegar stað að ykkar einlægur tók síðustu helgi upp á því að vakna vel fyrir allar aldir. Án þess að beina nauðsyn bæri til þess.

Til að fyrirbyggja misskilning nær orðasambandið ,,fyrir allar aldir” í mínum huga til alls þess sem gerist fyrir hálf-tíu á morgnanna.

Mér til mikillar undrunar komst ég að því að þetta fyrirkomulag hafði ýmsa kosti í för með sér. Það voru óneitanlega viðbrigði að vera skyndilega búinn að afreka allt sem tekur mann yfirleitt hálfa helgina að gera um hádegisbil á laugardegi.

Upp úr þessu hafði ég tvö heil síðdegi. Nýtti þau til að lesa í hinum þessum bókum og senda tölvupósta sem loksins höfðu hvorki neitt með vinnu né flutninga að gera.

Ég velti því fyrir mér hvort ég hefði hugsanlega með þessu uppgötvað nýjan lífsstíl sem ég gæti tileinkað mér. Eftir að hafa barist við svefndrunga alla vikuna þykist ég nú vita að þetta sé vissulega nýr lífsstíll. Þegar ég slökkti á vekjaraklukkunni 9 í á laugardag rann hins vegar upp fyrir mér það ljós að þennan lífsstíl gæti ég aldrei tileinkað mér.

Mikið var gott að sofa loksins út.

1 Innlegg:

Blogger Þórfreður sagði...

Það er fátt betra.

8:11 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home