miðvikudagur, september 07, 2005

Davíð Oddsson og Sister Sledge.

Þegar Davíð Oddsson varð forsætisráðherra var ég 14 ára. Ég var í ofvitabekk í Hagaskóla og var nýbyrjaður að læra alls konar pólitískar stellingar.

Þá hélt ég að áhugi á stjórnmálum væri eitthvað sérstakt gáfumerki. Þá átti ég líka margt ólært.

Sumarið 1991 var hinn svokallaða Viðeyjastjórn mynduð. Orðið á götunni það sumar var „heiðursmannasamkomulag“ enda var það sándbætið sem fjölmiðlar fengu þegar Davíð og Jón Baldvin komu úr eynni.

Ef marka má Guðmund Árna Stefánsson í tímariti Moggans voru ekki allir heiðursmenn í þeirri ríkisstjórn. Er helst á honum að skilja að þar hafi verið nokkrir sem væru réttnefndir „backstabbing S.O.B´s“ í Harlem. Þar á hann við Kratana.

Þegar Davíð Oddsson hættir sem raunverulegur forsætisráðherra þjóðarinnar er ég 29 ára útskrifaður lögfræðingur.

Fyrir sex árum ákvað ég að hringja í Davíð. Ekki á eigin vegum heldur á vegum RÚV. Eftir hafa kjaftað mig í gegnum aðstoðarmann og ritara og hlustað á þögnina í símanum um nokkurt skeið heyrði ég kunnuglega rödd hinum megin á línunni.

Í kjölfarið heyrði ég mína rödd spyrja hvort ráðherranm væri ekki til í smá sprell (sá eftir orðinu um leið ég sagði það). Á línunni sagði kunnuleg röddin að það færi nú eftir því hvað það væri. Mín rödd sagði þá að hugmyndin væri að fá að halda blaðamannafund í Stjórnarráðinu með forsætisráðherra. Ekki þó með blaðamönnum, heldur börnum úr Melaskóla á aldrinum 6-12 ára.

Á línunni varð löng þögn. Síðan heyrði ég: „Þetta er sniðug hugmynd.“ Þar með var þetta klappað og klárt og aðeins eftir skipulagningin.

Þegar dagurinn rann upp var ég óvænt orðinn barnapía í Stjórnarráðinu. Ekki þó barnanna, sem voru sátu róleg og spök, heldur foreldranna sem voru greinilega frekar smeyk við uppátækið.

Við Davíð settumst síðan niður á skrifstofu hans og fórum yfir þetta. Þegar í ljós kom að börnin voru fleiri en ráðherrarnir lét Davíð boð út ganga um að útvega fleiri stóla. Þeir yrðu að vera jafnstórir ráðherrastólunum þar sem börn væru nú einu sinni viðkvæm fyrir því að vera ekki gert jafnhátt undir höfði.

Á fundinum komu fram ýmsar nýjar upplýsingar um Davíð. Þar á meðal að hann honum þætti mjög vænt um hundinn sinn og að hann hefði líka átt kisu. Svo óvenjulega hefði viljað til að kisan hefði verið miklu sterkari en hundurinn.

Uppáhaldsspurningin mín af fundinum var frá 7 ára dreng í sparifötunum sem spurði með þjósti: „Hvenær drakkstu fyrst vín?” Davíð svaraði að hann væri því miður hræddur um að hann hefði verið alltof ungur þegar hann drakk fyrst vín. En svona væru blaðamannafundir: Maður yrði að segja satt, vegna þess að annars gæti eitthvert barnanna komist að hinu sanna og þá yrði hann í vondum málum, eins og sagt væri.

Einhverra hluta vegna hef ég uppfrá þessum fundi alltaf hugsað um Davíð þegar ég heyri diskólagið „He is the Greatest Dancer“ með Sister Sledge.

sunnudagur, september 04, 2005

Kveðjupartýið.

Nú eru flutningarnir til Lundúna að verða raunverulegri og raunverulegri með hverjum deginum. Ekkert aktúelt hefur gerst í pökkunarmálum, en þó er smá skipulagning á því hver passar hvaða húsgögn farin í gang. En til þess að hafa forgangröðina rétta þá efndum við hjónaleysin til síðasta Boðagrandafjöguríbúðþrjúhundruðogtvö partýsins til að kveðja vini.

Partýið byrjaði rólega en þegar leið á kvöldið voru allflestir á dansgólfinu í brjálaðri sveiflu (Egill á hvaða dansnámskeiði fórst þú?) í takt við stuðtónlist ala Victoria sem er bytheway á lausu. Guðný Nielsen hefur vafalaust náð að festa þetta allt á filmu og bíð ég spennt eftir að sjá myndirnar. Við rétt náðum að syngja afmælissönginn hennar Krunku sem átti 25 ára afmæli. Sverrir kom með óvænt útspil og Ragna með leyndan glaðning sem mér finnst prívat og persónulega að fleiri ættu að fá að njóta ; )

Mikið á ég nú eftir að sakna allra.