miðvikudagur, október 11, 2006

Sydney, juð og áfengismennt

Nú skuldum við ferðasögu, heimkomusögu, og alskonar sögur frá mánaðarlöngu bloggfríi. Sydney er hin vænsta borg og Ástralir hið ágætasta fólk svo ekki sé meira sagt. Beinskeyttur og kaldhæðinn húmor þeirra átti vel við okkur skötuhjú. Ferðasagan verður látin liggja milli hluta á þessum vettvangi úr því sem komið er og áhugasamir hvattir til að mæta í heimsókn fyrir frekari ferðasögu og myndasyrpur. Fest voru kaup á hágæða myndavél í ferðalaginu og af því tilefni sægur af myndum tekinn, en af einhverjum tæknilegum orsökum rata þær ekki inn á bloggið.

Við skötuhjúin erum búin að koma okkur vel fyrir hér á Tómasarhaganum. Þvílík dásemd þessi gata. Um klukkan hálf níu á morgnanna koma til okkar syngjandi gestir, þrír spörfuglar, og setjast á fína “nýja” handriðið okkar. Við sem sagt tókum okkur til og juðuðum svalarhandriðið og lökkuðum svo með hammerite lakki á eftir. Erum nokkuð stolt af árangri erfiðisins.

Maður er nú samt ekki almennilega fluttur fyrr en eftir að hafa haldið nokkur matarboð, gott partý og fengið til sín næturgesti. Helgin mun vera helguð því síðastnefnda því Bríet og Breki munu flytjast til okkar annaðkvöld meðan frú Laila stórafmælisbarn og Manni skreppa til Barcelona. Matarboðin verða reidd fram hvert á eftir öðru á nánustu framtíð; viðveran í boxinu leiddi til æfingaleysis sem er núna verið að ráða bótum á.

Partýið góða var haldið um helgina og var þar margt góðra gesta. Urðarkötturinn átti þar stórleik með því að færa mér þá stórkostlegu bók Áfenga drykki eftir bruggunarverkfræðinginn og Humboldt-styrkþegann Hinrik Guðmundson (Dipl.Ing).

Formáli bókarinnar vakti sérstaka athygli en hann er svohljóðandi:

,,Íslendingar hafa ekki alizt upp við áfengismennt eins og aðrar hvítar þjóðir, sem hafa aldagamla sögu og reynzlu að baki sér í þessum efnum, enda ekki við því að búast af landfræðilegum orsökum og vegna erfiðra lífskilyrða.” (Guðmundsson, H. 1953. Áfengir drykkir: Öl, vín, brenndir drykkir og vínblöndur. Borgarprent Reykjavík. Bls. 5)

Bók Hinriks hefur að geyma ýmsan fróðleik. Hann segir til dæmis frá tilurð barsins og hanastélsins. Barinn kemur af orðinu “Barrier” því á landnámstíma Ameríku þegar - að sögn höfundar- “óskipulagðir innflytjendur af ýmsu tagi höfðu sjálfir á hendi framkvæmd persónuöryggis síns og vernd eigna sinna að miklu eða öllu leyti, þegar hnífar sátu laust í skeiðum og byssur réðu oft á tíðum úrslitum í samskiptum manna, þótti veitingarmonnum örugggara að hafa varnargirðingu fyrir framan veitingaborðið til þess að tryggja sér svigrúm til ganráðstafana, ef um óspektir eð áras var að ræða.” (Guðmundsson, H. 1953. Áfengir drykkir: Öl, vín, brenndir drykkir og vínblöndur. Borgarprent Reykjavík. Bls 71)

Leggur hann einnig ríka áherslu á að glösin séu kristaltær og ber þvi við að “lituð glös séu miskilningur.” Í niðurlagi bókarinnar leggur hann ríka áherslu á að menn fylgist með því áfengismagni sem það hefur innbyrt þar sem ½ - 1 klst getur liðið þar til menn verða varir við áhrif þess. Hann heldur svo áfram:

,,Þeir sem þrátt fyrir allt hafa ruglazt í ríminu og drukkið meira en þeir eru menn til að þola, geta reynt að styrkja sig á eftirfarandi:

Praire-oyster-cocktail
Takið cocktailglas og látið í það 1 matskeið af enskri sósu og 1 heila eggjarauðu, sem á að fljóta á sósunni. Stráið salti og papríku yfir, hellið 1 teskeið af edikið þar á ofan og fyllið síðan glasið með matarolíu. Drekkið úr glasinu í einum sopa og skolið niður með vatni.” (Guðmundsson, H. 1953. Áfengir drykkir :Öl, vín, brenndir drykkir og vínblöndur. Borgarprent Reykjavík. Bls 176)