mánudagur, mars 13, 2006

Á milli hæða.

Í dag hittum við Árni Howard Davies í fyrsta skipti. Fyrir þá sem ekki vita er Howard Davies einmitt maðurinn sem gegnir hinu virðulega embætti rektors London School of Economics.

Það verður varla sagt að þessi fundur hafi verið formlegur enda átti hann sér þann aðdraganda að rektor ákvað á síðustu stundu að slást í för með okkur Árna í lyftu upp á fjórðu hæð skólans.

Því miður var lítið um samræður í þessari stuttu samfylgd okkar. Skýringarinnar er væntanlega helst að leita í því að rektor var alla ferð okkar önnum kafinn við að bryðja Walker´s Crisps kartöfluflögur af slíku hungri að undir tók í lyftunni.

Þeirri hugsun skaut upp að ef við hefðum einhvern tíma lent í þeirri lífsreynslu að hitta Pál Skúlason borðandi úr Doritos poka undir höndinni á námsárum okkar í HÍ hefði enginn lagt trúnað á þá frásögn.

Ég veit ekki með Árna, en einhverra hluta vegna sló þessi máltíð rektors mig út af laginu og jók heldur óframfærni í mér ef eitthvað var. Annars hefði ég líklega geta brotið ísinn með setningu á borð við: ,,Did you know Mr Davies, that Gina Gough, of Staffordshire, claims to have eaten 15 bags of these a day for three years and that it nearly killed her?”