mánudagur, október 17, 2005

Mikilvægasta djobbið.

Spurningin um hver gegni mikilvægasta starfinu er sígilt deiluefni. Læknar, löggur og kennarar voru alltaf ofarlega þegar gerðar voru kannanir um þetta forðum daga. Og sjómenn.

Sú spurning sem brennur einna heitast á mönnum í Bretlandi núna er hvort maður að nafni David Cameron hafi neytt ólöglegra fíkniefna eða ekki þegar hann var í Oxford. David þessi varð nýlega þekktur fyrir það að lýsa því yfir opinberlega að hann langaði ofboðslega mikið til að vera formaður Íhaldsflokksins. Að vísu notaði hann önnur orð til að tjá þessa löngun sína. Merkingin var samt hin sama.

Sem betur fer fyrir David finnst flestum hann eiga að fá að vera í friði með hvaða vímuefnum hann hafði smekk fyrir á sokkabandsárum sínum. Það virðist vera svipað og spurningin um fortíð okkar manns í Washington. Öllum virðist vera nokk sama hvort leiðtogi hins frjálsa heims hafi verið í dópinu, jafnvel þótt ýmis vitni hafi borið um slíkt. Nóg gerir hann annað sem við getum haft áhyggjur af.

Öðru máli gegnir hins vegar um Kate Moss sem nýlega varð fyrir því óláni að festast á filmu þar hún sat í mestu makindum við persónulega kókaínneyslu. Í kjölfarið sögðu Burberry, Chanel og H&M upp samningum sínum við Moss þegar í stað með þeim skilaboðum að þessi hegðun yrði engan veginn liðin.

Boðskapur þessa er greinilega sá að við treystum leiðtogum okkar ágætlega þótt þeir neyti fíkniefna. Að sitja fyrir á tískuljósmyndum er hins vegar ábyrgðarstaða sem gera verður skýlausa kröfu um að fólk gegni ekki undir áhrifum.