þriðjudagur, ágúst 30, 2005

Harði diskurinn.

Einn er sá diskur sem er öðrum diskum fremri á heimilinu. Það er harði diskurinn.

Á heimilinu þrjár fartölvur sem hver um sig hefur 60, 40 eða 4 GB harðan disk. Af þessum tölvum hefur 4 GB Toshiba tölvan uppskorið langmesta aðdáun og forvitni. Mest af því síðastnefnda hlaut hún reyndar árið 1999. Síðan hefur athyglin meira verið af neikvæðum toga, ef einhver er.

Vegna flutninganna liggur megináherslan þessa dagana að koma sem mestu fyrir í sem minnstu plássi. Í dag lögðum við af stað í leit að nýjum og stærri hörðum diski. Sá diskur þurfti helst að hafa burði til þess að vera samastaður undir alla þá tónlist og bíómyndir sem fanga myndu athygli okkar næstu árin. Svo verður Sylvía að geta klippt í tölvunni.

Hef lengi gælt við hugmyndina um föður allra harða diska. Með því meina ég diskinn sem geymir bókstaflega allt. Að loknum rannsóknum á málinu varð mér ljóst að harðir diskar eiga nokkuð langt í land. Þeir eiga til að mynda enn í stökustu vandræðum með að ná pari við heilann. Áætlað geymslupláss heilans er um þrjú terabæti. Tera er þúsund í fjórða veldi. Mun fleiri núll en ég nenni að skrifa.

Fundum utanáliggjandi harðan disk upp á 160GB. Það er geymslupláss á við nær minnislausan mann.