mánudagur, ágúst 29, 2005

1x2

Þau stórtíðindi áttu sér stað um helgina að ég vann í happdrætti.

Reyndar er ekki nákvæmt að nota orðið ,,happdrætti” um þessi stórtíðindi. Það var nefnilega ítalski getraunaseðillinn sem var vettvangur sigra minna að þessu sinni.

Þegar menn spila í getraunum er það gert í trausti þess að þekking þeirra knattspyrnunni ráði mestu um uppskeruna. Væntanleg úrslit leikjanna eru því sjaldnast merkt inn á seðlanna öðruvísi en að undangenginni ítarlegri greiningu á gengi liðanna, meiðslum lykilmanna og liðsandanum – því óáþreifanlega fyrirbrigði.

Flestir þeir sem spila í getraunum myndu aldrei spila í lottói. Í þeirra augum er þátttaka í leik þar sem ávöxtun peninga ræðst alfarið af slembilukku ekkert annað en fullkomið ábyrgðarleysi.

Við sölu íbúðarinnar og upphaf náms þarf að huga að peningamálum. Eftir að hafa kannað landið á hlutabréfa- og gjaldeyrismarkaði komst ég að þeirri niðurstöðu að 1x2 væri vænlegasti fjárfestingarkosturinn. 1x2 er til dæmis mun gagnsærri en fyrrnefndu markaðarnir. Þá munu innherjasvik ekki vera eins algeng þar. Ég fylgist líka mun betur með því hvað Arsenal er að gera í sínum herbúðum en Actavis hf.

Smellti mér á netið og keypti nokkra seðla. Röðin kostaði tíu krónur. Það verður að teljast lítil áhætta. Í kjölfarið var bara að sitja og bíða.

Oft hef fylgst spenntur með gangi mála í boltanum. Þegar ég komst að því að ég væri með 11 rétta hélt ég hins vegar að spennan myndi bókstaflega ríða mér að fullu. Ég ætla ekki einu sinni að reyna lýsa þeirri tilfinningu sem greip mig þegar síðasta leiknum lauk. Ég var orðinn vinningshafi í getraunum.

Nú er bara að ákveða hvernig vinningsfjárhæðinni verður ráðstafað. Það er víst ýmislegt hægt að fá fyrir 240 krónur.

3 Innlegg:

Blogger Þórfreður sagði...

Mundu, Kjartan: Mjór er mikils vísir; það sem byrjar með kaupum á einum 1x2-miða getur hæglega endað með því að aleigan tapast á enskum veðreiðum. Það sanna dæmin – ójá.

11:27 f.h.  
Blogger Nielsen sagði...

Þú getur kannski keypt þér annan Brahms-disk!?!

12:04 e.h.  
Blogger KjartanB sagði...

Ég þakka heilræðin. Ég tilheyri samt hópi manna sem verðbréfamiðlarar kalla áhættufælna fjárfesta. Veðreiðarnar munu því vart kalla Á Englandi.

Hvar fást annars Brahms-diskar á 240 krónur? Ég býð staðgreiðslu.

12:44 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home