mánudagur, ágúst 29, 2005

Klassiski vinsældalistinn.

Stór hluti helgarinnar fór í heilabrot um hvaða geisladiska ég tæki með til London. Það er þarft verkefni en síður en svo auðvelt.

Að vísu velur sú rokk- og dægurmúsík sem til er á heimilinu sig að mestu sjálf. Ef líf og samband okkar hjónaleysa væri rómantísk gamanmynd þá væru David Gray, Damien Rice, John Lennon og Sinead O´Connor öll hluti af sándtrakkinu. Þau eru örugg áfram í valinu.

Þegar Sylvía samþykkti að fara að búa með mér fyrir fimm árum var sérviska mín um ýmsa hluti þar ekki undanskilin. Í því fólst meðal annars að ég tæki inn á sameiginlegt heimili okkar á fimmta hundrað diska af klassískri tónlist.

Farangursreglur Iceland Express leyfa ekki að ég taki mikinn fjölda klassískra meistara með mér út. Settist því fyrir framan geisladiskastandinn á laugardag í sama niðurskurðarhug og Geir H. Haarde þar sem hann situr á skrifstofu sinni yfir fjárlagafrumvarpinu.

Mahler varð fyrstur fyrir barðinu. Mahler er reyndar öðrum tónskáldum fremri í tjá taugaveiklun og örvæntingu í tónlist sinni. Þar sem taugaveiklun og örvænting eru ekki forgangsatriði þessa daga frekar en aðra féll dómurinn skjótt: Mahler og ljóð hans um dáin börn sitja því eftir.

Bach var næstur í röðinni. Hann er hrein andstæða Mahlers. Í tónlist Bachs ríkir alger yfirvegun. Bach er hins vegar oft svo yfirgengilega yfirvegaður að hann verður kuldalegur. Hann er líka óþolandi fullkominn. Nýleg vitneskja mín um að hann hafi notað stærðfræðilegar aðferðir við að semja tónlist voru honum heldur ekki til framdráttar: Bach fer ekki með.

Minni spámenn voru fljótafgreiddir. Schumann situr eftir vegna þess að hann er væminn, og Verdi og Puccini vegna þess að þeir eru yfirborðskenndir. 20. aldar tónskáldin sitja eftir vegna þess að þau eru 20. aldar tónskáld. Á sama hátt fara Beethoven, Mozart og Wagner með af þeirri ástæðu að þeir eru Beethoven, Mozart og Wagner.

Þá var röðin komin að Brahms. Eitt uppáhaldsverkið mitt Þýsk sálumessa er eftir Brahms. Þýska sálumessan er sérstök að því leyti að Brahms var ekkert sérstaklega trúaður. Verkið samdi hann aftur á móti í minningu móður sinnar sem stóð honum afar nærri. Ólíkt öðrum messum þá einkennist verkið ekki af trúarhita og sannfæringu. Þess í stað einkennist tónlistin öðru fremur af söknuði, hlýju og væntumþykju.

Brahms er ekki fullkominn. Hann samdi hins vegar tónlist sem minnir mann öðru fremur á gamla vini sem maður veit að alltaf er hægt að stóla á og tengslin rofna aldrei við. Auðvitað tekur maður slíka tónlist með þegar maður flytur til annarra landa.

7 Innlegg:

Anonymous Nafnlaus sagði...

Ég ætla rétt að vona að ég fái að geyma diskana sem þú skilur eftir. :)

2:56 e.h.  
Blogger KjartanB sagði...

Þú ert hér með tekinn á orðinu.

3:18 e.h.  
Blogger Nielsen sagði...

Þessir diskar hljóma lovlí! Hver er þessi Gvari sem ætlar að geyma þá??? Á hann dömu? Má ég passa með honum?!? Tek 180 kall á tímann eins og ég gerði á gelgjunni þegar ég var í vist.

3:44 e.h.  
Blogger KjartanB sagði...

Gvari er yngri bróðir þess sem hér ritar. Hann er afar frátekinn með fyrirtaksdömu upp á arminn.

Hefði annars verið spennandi að heyra pössunaráætlanirnar með diskana. Er svona mikið pláss á Indlandi?

4:36 e.h.  
Blogger Nielsen sagði...

Á Indlandi þekkir fólk varla þessi mögnuðu tónskáld. Þau yrði feikispennt. Ef ég dreifði þeim líkt og um matarbirgðir væri að ræða...? Ég myndi vekja mikla lukku!

12:09 e.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

A eg ad trua ad thu sert ekki buin ad "downloada" safninu inn a tolvuna?

12:38 e.h.  
Blogger KjartanB sagði...

Ég hugsa ég fari á stúfana eftir hörðum diski í dag. Þetta verður alltof erfitt annars.

12:46 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home