mánudagur, september 19, 2005

Sönn ást.

Er kominn aftur til London einn míns liðs. Sylvía þurfti að sinna brýnum erindum í Osló (er annars nokkuð brýnna en almannavarnir?) og kemur ekki fyrr en á miðvikudagskvöld.

Til þess að hafa ofan af fyrir mér í ákvað ég að skella mér á völlinn 10 mínútna ferð með lestinni í norður til að sjá Arsenal spila við Everton.

Leikurinn var algerlega að mínu skapi: Mínir menn sýndu skemmtileg tilþrif, skoruðu tvö mörk og sigur þeirra var aldrei í hættu.

Þar sem ég er viðkvæm sál og tilfinninganæmur frábið ég mér alfarið að leikir þar sem mín lið koma við sögu séu spennandi. Slíkt er eingöngu til þess fallið að hækka blóðþrýsting með tilheyrandi líkum á heilsutjóni. Helst myndi ég kjósa að liðið mitt ynni alltaf 5-0 eða meira.

Það vakti annars athygli mína að fyrir leik og í hálfleik voru lesnar upp kveðjur til fólks á vellinum, svona eins og í útvarpinu á jóladag.

Margir á vellinum áttu greinilega afmæli í gær. Þá höfðu líka margir fengið sömu hugmyndina að senda þeim afmæliskveðjur í hátalarakerfi vallarins.

Ein kveðja var hins vegar til karlmanns sem hafði sett sér það takmark að fara á völlinn hjá hverju einasta atvinnumannaliði á Englandi. Í gær lokaði hann hringnum á Highbury sem var 92. völlurinn í röðinni. Það eru 8.280 mínútur af fótbolta. Með því er ekki talinn viðbótartími, hvað þá ferðalög til og frá velli.

Af því tilefni var manninum borin eftirfarandi kveðja:

,,Elsku Gary minn. Innilega til hamingju með áfangann. Ég er svo stolt af þér. Þín elskandi eiginkona, Heather.”

Með þeim fyrirvara að nefnd Heather sé ekki ákaflega meðvirk kona, er erfitt að ímynda sér einlægari og fölskvalausari ástarjátningu en þessa.

3 Innlegg:

Blogger Nielsen sagði...

Hvílík vonbrigði að Gary skuli vera giftur!!!
Hann er sannkallaður draumaprins! Þessi eldmóður - Þessi ástríða fyrir tuðrusparki!
Þar sem hann er AF markaðnum, er ég farin heim - til minnar óumflýjanlegu piparjónkuframtíðar.

En Kjartan minn, mér hefði nú þótt vænt um að fá smá tilhlökkun vegna komu minnar á miðvikudagskvöld tjáða í þessu bloggi þínu.

10:05 f.h.  
Blogger KjartanB sagði...

Guðný mín: Ég hélt að tilhlökkun okkar hjónaleysa væri deginum ljósari og að hana þyrfti ekki að tjá með orðum.

Er nú í óða önn að skreyta boxið og undirbúa komu þína. Það er svo sannarlega ekki hversdagslegur viðburður þegar fólk stoppar þar á leiðinni til Indlands.

10:12 f.h.  
Blogger Nielsen sagði...

Mikið óskaplega er ég spennt!
Hlakka til :D
Sjáumst annað kveld.

3:18 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home