sunnudagur, október 02, 2005

Í hægri endursýningu.

Dagarnir í London hafa liðið hratt. Margt hefur verið að sjá, enn fleira að kynnast og sumt hefur maður orðið að læra og tileinka sér. Maður verður líka áþreifanlega var við þá staðreynd að jafnvel þótt hlutirnir gerist hratt þá tekur allt sinn tíma.

Þegar maður býr í stórborg í stað þess að heimsækja hana getur maður leyft sér þann munað að villast í henni meira. Betri leið til að kynnast borg er vandfundin enda ratar maður þá um ýmsar fáfarnari slóðir sem ósjaldan eru engu síður áhugaverðar en þær fjölfarnari.

Um síðustu helgi tókum við okkur stutta pásu frá London og fórum í þrjá tíma inn í Sheperds Bush Empire, tónleikahús með óvenjulega heimilislegt yfirbragð. Þetta kvöld átti maður að nafni David Gray húsið.

David Gray semur lögin sín eins og hann sitji í djúpum hugleiðingum um lífið einn á bar á föstudagskvöldi. Flutningur laganna gefur hins vegar helst til kynna að hann sé nýkominn úr ræktinni, fullur af bjartsýni og orku.

Það er gaman að vera á tónleikum þegar öll upplifunin er á þá leið að maður sé á nákvæmlega réttum stað, á nákvæmlega réttum tíma og með nákvæmlega réttu manneskjunni.